Karlmenn eru ekkert merkilegri en konur

Í september á Átak, félag fólks með þroskahömlun stórafmæli og verður 25 ára. Snæbjörn Áki Friðriksson er fyrsti karlinn sem gegnir hlutverki formanns félagsins. Jafnréttiskarlarnir ræddu við hann um jafnrétti og þátttöku karla í jafnréttisstarfi.

Aðgengilegur útdráttur

  • Átak verður 25 ára í september
  • Áki er fyrsti karlinn sem er formaður Átaks
  • Í Átaki eru 200 – 250 félagsmenn
  • Átak eru baráttusamtök
  • Áka finnst karlmenn vera meðvitaðri um kynjajafnrétti
  • Fræðsla mikilvæg í jafnréttisbaráttunni
  • Áka finnst karlar ekkert merkilegri en konur

Áki er formaður Átaks sem eru baráttusamtök
„Ég er formaður Átaks, félag fólks með þroskahömlun og við í félaginu erum svona 2 – 250 manns og við erum barráttusamtök sem berjumst fyrir réttindum fatlaðra“ segir Áki. Auk þess greinir hann frá því að Átak tali reglulega við ráðamenn og alþingismenn um réttindi fatlaðs fólks. „Mér finnst vera mikill heiður að leiða þetta félag ásamt stjórninni en það má ekki gleyma stjórninni því við erum saman í þessu. En þetta er mjög skemmtilegt og gefandi verkefni“, segir Áki.

Formaðurinn er í 50% starfi
Áki er í launuðu hlutastarfi sem formaður félagsins og er á skrifstofunni nánast alla daga. Verkefni formanns eru fjölbreytt en það þarf að undirbúa ýmis mál, mæta á fundi en mikið er að gera hjá félaginu. Áki segir að allir séu velkomnir á skrifstofu félagsins að Háaleitisbraut 13 á fjórðu hæð en félagið er líka með heimasíðuna lesa.is. „Þetta er eiginlega mikið meira en 50% vinna en maður fær bara borgað fyrir 50% svo er hitt bara í sjálfboðavinnu, en það er bara gaman“, útskýrir Áki.

Karlar eru að verða meðvitaðri um jafnréttismál
Áka finnst karlar almennt vera meðvitaðri um mikilvægi kynjajafnréttis en hefur samt áhyggjur af stöðu karla í öllum þeim byltingum sem orðið hafa á undanförnum vikum og mánuðum. „Við megum ekki gleyma okkur í umræðunni því við erum líka mikilvægir og það kannski kemur að því einn daginn að karlmenn muni mynda einhverskonar #metoo byltingu eins og konur gerðu“, segir Áki. Það má segja að formaðurinn hafi verið sannspár því nú hafa karlar einmitt blásið til byltingar undir myllumerkinu #karlmennskan.

Fræðsla og kynningar mikilvægir þættir í jafnréttisbaráttunni
Áki hefur mikla trú á að fræðsla og kynningar hafi áhrif í jafnréttisbaráttunni. Hann nefnir sérstaklega framlag Jafnréttiskarlanna og segir: „Fræðsla eins og þið hafið verið að gera og ryðja brautina með, en það er sem sagt fræðsla og kynningar“. Hann nefnir einnig mikilvægi þessi að notaðir séu fjölbreyttir miðlar eins og sjónvarp, net og blöð til að koma boðskapnum til skila. „Það þarf að sýna öllum að karlmönnum er líka umhugað um réttindarmál“.

Karlmenn eru ekkert merkilegri en konur
„Karlmenn eru ekkert merkilegri en konur, ég meina við erum bara öll í sama liði hérna á Íslandi. Við erum ekki nema 330 þúsund þannig að við eigum alveg að geta unnið saman í þessum málefnum“, segir Áki.

Við þökkum Áka kærlega fyrir viðtalið og alveg ljóst að Átak er öflugt baráttufélag.