Jafnrétti á að vera sjálfsagt mál

Jón Yngvi Jóhannsson er einn höfunda skýrslunnar „Karlar og jafnrétti: Skýrsla og tillögur um aukinn hlut karla í jafnréttismálum“, sem skrifuð var fyrir Velferðarráðuneytið 2013. Jón Yngvi er menntaður bókmennta- og íslenskufræðingur og er lektor við Háskóla Íslands.

Aðgengilegur útdráttur  

  • Jón Yngvi skrifaði skýrlsu um karla og jafnréttismál
  • Jón Yngvi segir að það sé mikilvægt að allir hugsi um jafnrétti
  • Jón Yngvi fékk áhuga á jafnréttismálum þegar hann var nemandi í háskóla
  • Jón Yngvi segir að það sé slæmt ef karlar missi af foreldrahlutverkinu
  • Jón Yngvi segir að fræðsla um jafnrétti fyrir krakka sé mikilvæg
  • Jón Yngvi segir að ungir karlar hafi meiri áhuga á jafnréttismálum
  • Jón Yngvi segir að #metoo byltingin hafi haft mikil áhrif á jafnréttismál
  • Jón Yngvi segir að skólar og allt samfélagið eigi að hugsa um jafnréttismál
  • Jón Yngvi segir mikilvægt að allir á hverjum degi hugsi um jafnréttismál

Jafnrétti er hagur allra

„Eitt af því sem hefur stundum farið í taugarnar á mér og félögum mínum var að það var alltaf verið að klappa okkur á bakið og hrósa okkur fyrir að hafa áhuga á jafnréttismálum. Eins og það væri eitthvað sem að gerði okkur óvenjulega. Að við værum skrítnu strákarnir sem hefðu áhuga á jafnréttismálum. Ég held það skipti miklu máli varðandi jafnrétti, á öllum sviðum, sé að það sé hluti af meginstraumnum. Það þarf að ganga út frá því að jafnréttismál séu eitthvað sem allir hafi áhuga á því það er hagur allra“, segir Jón Yngvi Jóhannsson, lektor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Ef við látum eins og jafnrétti sé sjálfsagt mál verði auðveldara að virkja karla í jafnréttisbaráttunni.

Áhugi Jóns Yngva á körlum og jafnrétti kviknaði þegar hann var í háskóla. Þá hafi hann velt sér mikið upp úr bókmenntum, kynferði og karlmennsku – skrifað greinar og tekið þátt í samstarfi í kringum þau málefni. „Áhuginn tengist líka auðvitað einkalífinu, ég er giftur, á þrjár dætur og hef fylgst með þeim í skólakerfinu og annars staðar, það hefur líka áhrif“, segir Jón.

Kynjamisrétti getur leitt til þess að karlar missi af miklu

Jón Yngvi segir að kynjamisrétti geti líka verið slæmt fyrir karla. „Hvort sem að karlar gera sér grein fyrir því eða ekki, þá fylgja því forréttindi að vera karlmaður í okkar samfélagi, og eiginlega öllum samfélögum sem ég þekki til. En þessi forréttindi hafa líka ákveðinn kostnað í för með sér. Augljósasta dæmið um það er foreldrahlutverkið, ef ummönnun barna er algjörlega á könnu kvenna, eins og hún var, þá eru karlar að missa af mjög miklu.“

Lögðu til breytingar á fæðingarorlofi og aukna fræðslu í skólum

Skýrslan Karlar og jafnrétti, segir Jón að hafi verið skrifuð að beiðni þáverandi ráðherra til að greina ástandið og varpa hugmyndum um hvernig mætti breyta og bæta. „Aðgerðirnar sem við lögðum til voru breytingar á fæðingarorlofi og hugmyndir um fræðslu í skólakerfinu. Við vildum að strákar og stelpur í skólum fengju fræðslu um ofbeldi í nánum samböndum og um náin sambönd almennt. Þegar við fórum að skoða kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum þá einskorðast hún við kynfræðslu og einhverju leyti við lífsleikni, en við töldum það ekki vera nægilega fræðslu. Þetta er punktur sem við settum á oddinn og ég held að væri mikilvægt að grípa aftur núna“, segir Jón.

Ungir karlmenn eru til fyrirmyndar í jafnréttismálum

Jón Yngvi segir að ungir karlmenn í dag séu mun meðvitaðri en karlmenn voru þegar hann byrjaði að velta þessum málum fyrir sér, fyrir 20 árum síðan. „Ég umgengst svolítið karla á aldrinum 18-25. Það er aldursbilið á dætrum mínu og vinir þeirra eru alveg til fyrirmyndar hvað þetta [jafnrétti]varðar. Við meigum heldur ekki vanmeta alla þessa byltingu sem hefur orðið á síðasta ári, bæði #höfumhátt og #metoo, það hefur líka mikil áhrif“.

Hugtakið jafnrétti getur átt við meira en jafnrétti kynjana

Þegar Jón Yngvi byrjaði að hugsa um jafnrétti segir hann að lítið hafi verið minnst á jafnrétti fyrir alla. „Það er eitt að því sem við sem höfum komið að þessum málum lengi höfum lært á síðustu árum – varðandi hluti eins og kynhneigingu, þjóðerni, fötlun og aðrar breytur. Til dæmis þá er einn munurinn á skýrslunni okkar og eldri skýrslunni að við reyndum að taka þessa þætti inn líka. Við fjölluðum um fatlaða karla, erlenda karla, eldri og yngri karla og þar fram eftir götunum. Það er þó örugglega mjög langt í land ennþá því við sjáum enn í umræðunni um jafnrétti að þegar einhver nefnir orðið jafnrétti þá eru karlar og konur það fyrsta sem fólki dettur í hug“.

Skólar geta gert margt, en eru þó bara einn angi af samfélaginu

Jón Yngvi segir að skólar geti gert mjög margt, en stundum sorglega lítið til að stuðla að jafnrétti. „Skólar geta auðvitað verið með fræðslu eins og við lögðum til í skýrslunni. Skólar geta líka skipulagt starf sitt og kennslu þannig að allir njóti þar jafnréttis. En skólar eru auðvitað bara einn angi af samfélaginu. Ef skólarnir eru eins og eylönd þar sem talað er um jafnrétti en það nær ekki út í samfélagið þá gerir það takmarkað gagn. Það á ekki bara við um jafnrétti heldur öll grunngildi sem við viljum þræða inn í skólastarf, að ef skólarnir náekki út fyrir sína eigin veggi þá er takmarkað gagnþví miður.“

Mikilvægt að allt atvinnulífið beri ábyrgð á jafnrétti

Varðandi vinnustaði, þá segir Jón Yngvi að það sé mikilvægt að allir vinnustaðir beri ábyrgð á jafnrétti. Það sé mikilvægt að líta á atvinnulíf í heild sinni. Hvort sem um er að ræða framleiðslu, fjármálakerfið, félagslega geirann, heilbrigðiskerfið, eða aðra vinnustaði.

Lokaorð

Að lokum þakkar Jón Yngvi fyrir tækifærið til að að ræða þessi mál og velta þeim fyrir sér aftur. „Ég er búinn að vera að hugsa um eitthvað allt annað í dag, þetta var hressandi. Ég vil enda með að segja að það sem skiptir öllu máli er að jafnréttismál eiga að vera hluti af meginstraumnum og hluti af hversdeginum. Ekki eitthvað sem bara sumir fást við því þeir eru einvherjir sérstakir áhugamenn um jafnrétti. Jafnrétti þarf að vera eitthvað sem allir fást við. Eru þetta ekki ágætist lokaorð?“