Kynjamisrétti er ekki gott fyrir neinn

Mynd af Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson hefur verið virkur í umræðunni um þátttöku karla í jafnréttismálum

Aðgengilegur útdráttur

  • Ingólfur Ásgeir er kennari í Háskóla Íslands og skrifaði bók um jafnréttisuppeldi
  • Ingólfur Ásgeir segir að karlar séu að taka meiri þátt í heimilisstörfum og uppeldi barna
  • Ingólfur Ásgeir fékk áhuga á jafnréttismálum þegar hann var nemandi í háskóla
  • Ingólfur Ásgeir segir að kynjamisrétti sé vont bæði fyrir karla og konur.
  • Ingólfur Ásgeir segir að jafnréttisuppeldi sé mikilvægt.
  • Ingólfur Ásgeir segir að jafnréttisuppeldi sé til dæmis að kenna börnum öll heimilisstörf.

Jafnréttisuppeldi er bæði mikilvægt fyrir samfélagið í heild og drengina sjálfa segir Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor í menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann skrifaði bókina Karlmennska og jafnréttisuppeldi. Jafnréttiskarlarnir Gísli og Ragnar tóku viðtal við hann á dögunum til að fræðast um jafnréttisuppeldi. „Þá er tekið mið af því þegar verið er að ala upp krakka bæði á heimilum og skólum að karlar og konur og bara fólk yfirleitt eigi að njóta jafnra réttinda. Til dæmis að drengirnir séu aldir upp þannig að þeir geti gengið í öll störf á heimilinu og líka geti haft áhuga á störfum sem bæði karlar hefðbundið höfðu áhuga á eða karlar höfðu minni áhuga á með hefðbundnum hætti,“ segir hann.

Jákvæðar breytingar

Ingólfur Ásgeir bendir á að rannsóknir hafi sýnt aukna þátttöku karla í umönnun barna og heimilisstörfum á síðastliðnum 60 árum. „Kannski stafar það að hluta til af því að pör, karl og kona, þá eru nú yfirleitt bæði í vinnu utan heimilis, en það er nú samt ennþá þannig að konurnar vinna meira af heimilisstörfum en karlarnir í flestum tilvikum“, segir hann.

Karlar sem hafa áhuga á jafnréttismálum

Á námsárunum fékk Ingólfur áhuga á jafnréttismálum en hann lærði bæði sagnfræði og menntunarfræði. Í náminu lærði hann um femínisma og kynjafræði en fannst margt efni um karla og jafnrétti ekki nógu gott. „Það var litað af eðlishyggju um að allir karlar væru eins og ég hafði áhuga á því að skoða það í öðru ljósi,“ segir hann. Aðspurður um leiðir til að fá karla til að hafa áhuga á jafnréttismálum segir Ingólfur það vera erfiða spurningu. „Ég ætti nú kannski að spyrja ykkur [jafnréttiskarlana] að því hvernig þið fenguð áhuga á því? Einn lykillinn hlýtur auðviðað að vera fræðsla og af margvíslegum toga. Jafnvel getur verið að áróður sé nauðsynlegur“.

Kynjamisrétti er slæmt fyrir allt fólk

Ingólfur Ásgeir heldur því fram að kynjamisrétti sé slæmt fyrir allt fólk. Til að mynda geta karlar lent í þeirri stöðu að þeim séu ætluð ákveðin hlutverk sem þeir hafa síðan engan áhuga á. Hann nefnir dæmi um par, karl og konu, þá sé það algengt að karlinn fái betur launað starf og þegar parið er í fjárhagsvandræðum þá þurfi hann að vinna meira heldur en konan sem getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir karlinn, parasambandið og börnin. „Þannig að það væri betra fyrir karlana og konurnar að þessu væri jafnar skipt og ég held að það séu launamálin sem að ráði býsna miklu um þetta þegar fólk er í svona stöðu,“ útskýrir Ingólfur Ásgeir.

Heimili og skólar stuðla að jafnrétti

Kennsla í kynjafræði er meðal þess sem Ingólfur Ásgeir leggur til að skólar geri til að stuðla að jafnrétti. „Leikskólar geta skoðað leiki barnanna þannig að þeir passi það að drengir og stúlkur hafi ámóta tækifæri til að leika sér við ólík leikföng, hvort sem það er í kynjaskiptum hópum eða leika sér saman. Þannig ef þú skaffar stelpunum eingöngu Barbie og drengjunum gröfur þá ertu ekki að stuðla að jafnréttisuppeldi. Svo getur það gerst að stúlka sem á að vera að leika sér að gröfu í leikskóla hafi engan áhuga á því sko og þá neyðum við hana ekkert til þess“ segir hann. Að sama skapi geti foreldrar byrjað á því að klæða börnin í ólíka liti af fötum þegar þau fæðast og gert ráð fyrir því að drengir hafi áhuga á ólíkum hlutum. Mikilvægt sé að börnin séu ekki þjálfuð í mismunandi störfum á heimilinu eftir kyni heldur að reyna að stuða að því að bæði drengir og stúlkur læri ólík heimilsverk. Við þökkum Ingólfi Ásgeiri fyrir að ræða við okkur um jafnréttisuppeldi en á næstu dögum munum við tala við fleiri karla sem hafa látið til sín taka í jafnréttismálum.