"Við viljum vera sýnileg"
Þau eru þrjú, kannski pínu flippuð og heita Atli Már Haraldsson, Elín Sigríður María Ólafsdóttir og Þórey Rut Jóhannesdóttir. Þau eru nemendur í diplómunámi fyrir fólk með þroskahömlun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og eru að ljúka sex vikna verknámi undir leiðsögn Hörpu Björnsdóttur. Þau kalla sig AÐGENGILEGA HÓPINN.
Hópurinn hefur farið í heimsóknir á nokkra vinnustaði og tekið viðtöl við starfsfólk og fengið að skyggnast inn í starfssemi þessa staða. Þau heimsóttu Velferðarráðuneytið, Alþingi, Háskólatorg og List án Landamæra og funduðu með réttindagæslumönnum fatlaðs fólks. Heimsóknirnar voru virkilega áhugaverðar og lærdómsríkar.
Það sem kom mest á óvart.
Eitt af því sem kom hópnum hvað mest á óvart var hversu misjafnt aðgengið er fyrir þá sem nota hjólastóla. Til dæmis er aðgengi að Alþingi skelfilegt! Meðlimir hópsins höfðu einnig myndað sér ákveðna skoðun á réttindagæslumönnum byggða á starfsheiti þeirra. En þeir voru allir mjög indælir og ljúfir.
Hópurinn skoðaði Háskólatorg sem á að vera hjarta Háskóla Íslands og spjölluðum við jafnréttisfulltrúa skólans. Hann upplýsti Aðgengishópinn um að til stæði að bæta aðgengismál í Stakkahlíð en þar er diplómunámiðtil húsa. Búið er að gefa loforð um að námið fái sína eigin heimastofu (H101) og munu verða gerðar breytingar á henni þannig að fólk sem notar hjólastóla geti notað hana. Einnig á að laga stóru þungu hurðina sem er við aðalinnganginn þannig að hún haldist opin lengur og slasi engan. Teikningar eru tilbðúnar fyrir nýja salernisaðstöðu þannig að allir nemendur ættu nú að komast á salernið á skólatíma. Samkvæmt upplýsingum jafnréttisfulltrúans á þetta allt að vera tilbúið næsta haust 2018. Viljinn er augljóslega til staðar og þá er ekkert eftir nema að framkvæma. Þessar breytingar munu hafa jákvæð áhrif fyrir alla nemendur og starfsmenn skólans – aðgengið verður betra fyrir alla!
Félagslíf og aðgengi
Samvinna í vinnu og skóla leiðir oft til aukinnar samveru fyrir utan skóla- eða vinnutíma. Aðgengilegi hópurinn er engin undantekning. Eftir heimsóknirnar fór hópurinn saman út að borða en þá þurfti að vanda valið vel og helst hringja áður en farið var á staðinn til að þess að ganga úr skugga um að það væri alveg örugglega aðgengi fyrir alla í hópnum. Þetta finnst okkur auðvitað ekki í lagi! En með jákvæðnina að leiðarljósi fannst alltaf góður staður að lokum og ávallt stutt í grínið hjá hópnum.
Niðurstaða verknámsins
Niðurstaðan eftir allar heimsóknirar og athuganirnar er sú að samfélagið er ekki aðgengilegt fyrir alla. Aðgengi er alls ekki nægilega gott og ekki er gert ráð fyrir öllum. Aðgengi að upplýsinum er oft ágætt en mætti einnig bæta.
Hópurinn sér framfarir hvað aðgengismál varðar en finnst þær ganga frekar hægt. Hópurinn bíður spenntur eftir að sjá breytingar á Menntavísindasviði og framtíðardraumurinn er að útskrifast úr Háskóla þar sem aðgengið er frábært.
Aðgengilegi hópurinn er mjög listrænn og var ákveðið ljúka starfsnáminu með listasýningu. Verkin á sýningunni endurspegluðu sýn nemenda á aðgengismálum í samfélaginu. Eitt verkið sýnir til dæmis manneskju sem notar hjólastól og kemst ekki upp til himnaríkis. Til að komast þangað þarftu annað hvort að fara upp tröppur eða í pínulitla lyftu sem hjólastóllinn passar ekki í. Lykla Pétur segir einfaldlega “So Sorry”. Þessi mynd lýsir nákvæmlega þeim viðhorfum sem ríkja því miður allt of oft.
Í ferlinu var tekið mikið af ljósmyndum og myndböndum og búin til myndbandsdagbók sem birt var á youtube og facebook. “Við vilum vera sýnileg, hafa áhrif, tala af okkar eigin reynslu og miðla upplýsingum til fólks”.