Karlar eru að verða meðvitaðri um jafnréttismál

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson hefur verið áberandi í þjóðlífinu, oftast með loðhúfu á höfðinu, virkur Pírati og formarður NPA miðstöðvarinnar sem er samvinnufélag í eigu fatlaðs fólks. Miðstöðin aðstoðar fatlað fólk og aðstandendur þeirra við það utanumhald og umsýslu sem fylgir því að hafa notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Rúnar Björn býr yfir margvíslegri reynslu en hann hefur unnið sem verkamaður, í skreiðaverkun og er með fjölbreytt nám að baki. Jafnréttiskarlarnir ræddu við Rúnar Björn á dögunum um jafnréttismál, karla og hagsmunabaráttuna.

Aðgengilegur útdráttur:

  • Rúnar Björn er formaður NPA miðstöðvarinnar
  • NPA miðstöðin veitir mikilvæga aðstoð við NPA samninga
  • Formenn NPA miðstöðvarinnar hafa bæði verið karlar og konur
  • Rúnar Björn heldur að karlar séu að verða meðvitaðri um jafnréttismál
  • Jafnréttiskarlarnir gátu ekki tekið á móti Rúnari Birni á skrifstofunni sinni af því að hún er óaðgengileg

NPA miðstöðin veitir mikilvæga aðstoð

Starf formanns NPA miðstöðvarinnar er fjölbreytt en eins og fram hefur komið þá aðstoðar félagið fatlað fólk að halda utan um NPA samninga. „Bæði bókhaldsmálin og svo líka bara ýmislegt annað eins og að leysa vandamál sem geta komið upp“, sagði Rúnar Björn.

Formenn NPA miðstöðvarinnar hafa bæði verið karlar og konur

NPA miðstöðin var stofnuð 16. júní 2010 og var fyrsti formaður hennar Hallgrímur Eymundsson. Ári síðar tók Embla Guðrúnar Ágústsdóttir við formennskunni til ársins 2014. „Svo var Ásdís Jenna kosin og síðan ég, þannig að það hafa verið tveir karlar formenn“, sagði Rúnar Björn.

Karlar eru að verða meðvitaðri um jafnréttismál

„Ég held að karlar séu að verða meðvitaðri um jafnréttismál. Ætli karlar þurfi ekki bara að fatta það að þeir séu kannski svolítið í sömu stöðu og konur að mörgu leyti“, sagði Rúnar Björn en viðurkenndi að hann hefði kannski ekki pælt mikið í þessu og hlutverki miðstöðvarinnar í að stuðla að jafnrétti í samfélaginu.

Jafnréttiskarlarnir þakka Rúnari Birni fyrir viðtalið og heimsóknina til okkar í Stakkahlíð, húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands en við gátum ekki tekið á móti honum á skrifstofu okkar sem er óaðgengileg en nýlega uppgerð.