Áslaug Ýr háskólanemi

“Mér finnst að við þurfum að horfa á fatlaðar konur í heild. Ekki flokka þær. Fatlaðar konur og ófatlaðar konur það eru allt konur. En fatlaðar konur þurfa að fá þá aðstoð sem þær þurfa til að geta varið réttindi sín. Ég er til dæmis með heyrnar- og sjónskerðingu og ég get ekki varið réttindi mín ef ég er ekki með aðstoðarmann og túlk. Það er ýmislegt sem þarf að laga í kerfinu. Eins og til dæmis þá fær fatlað fólk ekki NPA samninga nema að vera alveg rosalega fatlað. Við þurfum að bæta kerfið og líta á fatlað fólk sem einstaklinga en ekki eitthvert vandamál.”
Mynd af Freyju Haraldsdóttur

Freyja Haraldsdóttir þroskaþjálfi og MA í kynjafræði

“Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er ákvæði sem fjallar um fatlaðar konur vegna þess að það er viðurkennt að við verðum fyrir misrétti sem er stundum annarskonar og flóknara heldur en ófatlaðar konur og fatlaðir karlar. Sem dæmi þá þurfa ófatlaðar konur víða um heim að berjast fyrir því að fá að fara í fóstureyðingu eða fara eftir ólöglegum leiðum sem stofna heilsu þeirra og öryggi í hættu. Á meðan eru fatlaðar konur jafnvel þvingaðar í fóstureyðingu. Þá er það oft þannig fyrir ófatlaðar konur að það er ætlast til þess að þær séu sætar og fínar á meðan fatlaðar konur og fatlaðir karlar eru álitin kynlaus. En í grunninn er sameiginlega vandamálið að við fáum ekki að skilgreina líkama okkar og þarfir sjálf. 

Nú er búið að fullgilda samninginn en ég tel að við þurfum að lögfesta hann svo hann sé ekki bara einhver falleg orð á blaði heldur að okkur beri að fylgja því sem stendur í honum. Og svo skipti líka máli að fatlað fólk af öllum kynjum geti haft NPA ef það vill. Fyrir mig sem fatlaða konu gerir NPA mig öruggari og dregur úr líkunum á að ég verði fyrir ofbeldi, m.a. því þá þarf ég ekki að vera á stofnun og ræð því hver aðstoðar mig.“

Mynd af Ínu Valsdóttur

Ína Valsdóttir, Sendiherra samnings Sameinuðuþjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

„Það þarf að bæta aðstæður fatlaðra kvenna. Sérstaklega varðandi ofbeldi. Við þurfum að vera meira vakandi fyrir þessum málum og taka harðar á þeim þegar þau koma upp. Það er svo margt sem þarf að bæta. Sem dæmi þá er verið að koma í veg fyrir að fatlaðar konur eignist börn. Það er verið að neyða fatlaðar konur í fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þannig er verið að taka sjálfræðið af þeim. Ég þekki svo mörg dæmi þar sem fatlaðar konur fá ekki að ráða hvað þær vilja gera. En auðvitað eru líka fatlaðir karlar sem fá ekki að ráða sér sjálfir. Við þurfum að viðurkenna það að fatlað fólk á að fá að ráða yfir sér og sínum líkömum sjálft. Ekki stjórnvöld, foreldrar eða starfsfólk.“ Ína Valsdóttir útskrifaðist úr starfstengdu diplómunámi við HÍ 2015, sendiherra samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fyrrverandi formaður Átaks
Mynd af Katrínu Guðrúnu Tryggvadóttur

Katrín Guðrún Tryggvadóttir, dagskrárgerðakona

“Já ég hef heyrt um það að fötluðum konum sé mismunað. Til dæmis fá sumar ekki vinnu af því að þær eru fatlaðar. Mér finnst að það þurfi að breyta þessu. Fatlaðar konur hafa það margar ekki gott. Ekki bara fatlaðar konur heldur fatlað fólk almennt sem lendir bara oft í alls konar veseni. Mér finnst að Alþingi eigi að gera eitthvað í þessu með lögum. Margir dómstólar mismuna fötluðu fólki og oft þegar þau lenda í einhverju þá dæma dómstólar oft þeim ekki í hag. Mér finnst að það þurfi að gera eitthvað í þessu.” Katrín Guðrún Tryggvadóttir, dagskrárgerðakona og útskrifuð úr starfstengdu diplómunámi við HÍ árið 2017.
Mynd af Aileen Soffíu Sveinsdóttur

Aileen Soffia Svensdóttir fyrrverandi formaður Átaks

“Fatlaðar konur eru útsettari fyrir ofbeldi og mér finnst eins og það sé ekki alltaf hlustað á okkur. Ég var búin að vera í vinnu í fjórtán ár en missti vinnuna. Það var bara konum sagt upp. Eftir á að hyggja þá sé ég það þannig að fötluðum körlum var haldið í vinnu en konum sagt upp. Þannig að ég fór að hugsa hvort við hefðum færri tækifæri í lífinu heldur en fatlaðir karlar? Fatlað fólk hefur takmörkuð tækifæri á að sækja sér menntun. Og ef við höfum menntun þá er ekki mikið tekið mark á því. Ég er loksins að fá vinnu núna sem félagsliði 14 árum eftir að ég lauk námi. En með aukinni fræðslu og sýnileika er hægt að bæta stöðu fatlaðra kvenna.”