Hættir diplómunámið í Myndlistaskólanum í Reykjavík?

Eftir tveggja ára tilraunaverkefni þar sem nemendur með þroskahömlun hafa fengið tækifæri til að þroska og nota sköpunargáfu sína og listræna getu í Myndlistaskólanum í Reykjavík er óvissa með framhaldið. Um er að ræða árangursríka tilraun þar sem nemendur hafa aðgang að kennurum, þekkingu, efnivið og aðstöðu til jafns við aðra. Fatlað fólk sem hefur fengið tækifæri til náms og gengið hefðbundna listskólagöngu og útskrifast úr „viðurkenndum“ listaskólum hafa frekar fengið tækifæri til þátttöku í menningarlífinu heldur en sá hópur fatlaðra listamanna sem ekki hefur greiðan aðgang að skólakerfinu. Hér er átt við fólk með þroskahömlun en Margrét M. Norðdahl (2014) kemst að þeirri niðurstöðu í meistaraprófsritgerð sinni frá Listaháskóla Íslands að „kröfur um nám og faglega reynslu eru þeir augljósu þröskuldar sem sýningarsalir, liststofnanir og fagfélag myndlistarmanna setja upp“ (bls. 73).

Mynd af Halldóru Jónsdóttur

Halldóra Jónsdóttir, nemi í Myndlistaskólanum í Reykjavík

“Ég er í diplómunámi í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Það er mjög gaman. Ég mæli með þessu námi og mér finnst það ekki í lagi ef það á ekki að halda áfram með diplómunámið. Það eiga allir að fá tækifæri á námi og að þróa sig í listinni”
Mynd af Sigrúnu Huld

Sigrún Huld myndlistakona og nemi í Myndlistaskólanum í Reykjavík

“Hér er ég að læra að mála. Ég er búin að gera nokkrar svona myndir. Líka af heita pott og sundlaugabökkum”
Mynd af Elínu Fanney

Elín Fanney, nemi í Myndlistaskólanum í Reykjavík

“Ég var í grunnskóla í Hafnarfirði og fór svo í Flensborg. Ég er núna í námi í Myndlistaskólanum og er mjög ánægð. Ég nota tónlist mikið í mínu daglega lífi og hef verið að vinna með það í myndlistinni”. 

Mynd af Ísaki Óla

Ísak Óli myndlistarmaður og nemi í Myndlistaskólanum í Reykjavík

“Ég er að gera tónlistarmyndband með Prins Póló. Við fórum á tónleika með honum á Kex og tókum myndir og myndbönd. Ég nota iPad til að gera myndbandið.”
Mynd af Atla Má, myndilstamanni

Atli Már, nemandi í Myndlistaskólanum í Reykjavík

“Ég er í Myndlistaskólanum. Ég er að teikna og mála. Ég er líka búin að gera stuttmynd.”
Mynd af Birki Sigurðssyni

Birkir Sigurðsson, nemi í Myndlistaskólanum í Reykjavík

“Nám á að vera fyrir alla og ég hef verið í mjög mörgum skólum en þetta er besti skólinn sem ég hef verið í. Ég er að vinna með þessa kassa og að utan er annar ógeðslegur en inni í honum er gleði en hinn er fallegur en ógeðslegur inni í, en þú sérð það ekki. Þetta er svona að þú átt ekki að dæma eftir útlitinu.”
Mynd af Gígju

Gígja, nemi í Myndlistaskólanum í Reykjavík

“Ég er í diplómunámi í myndlist í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Ég er að vinna útfrá hugmynd um hljómsveit. Ég byrjaði á að gera texta og svo gerði ég teikningar. Vann fyrst á pappír en svo á vínylplötur. Ég pússaði þær og málaði. Svo bjó ég til lag í Garage Band og söng textann sem ég samdi inná. Ég bjó líka til myndband við lagið. Ég náði í myndir af netinu og fékk Atla til að dansa. Og núna er ég að mála leir. Ég útskrifast svo í maí.”