Aðildarríki Sameinuðuþjóðanna viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu

Mynd af Auðni gunnarssyni

Auðun Gunnarsson, bókvörður

“Ég hef unnið á bókasafninu síðan ágúst 2003. Mér líður bara vel hérna, nóg af verkefnum. Hér er gott starfsfólk og góður yfirmaður. Það er mikilvægt að fatlað fólk fái laun eins og aðrir fyrir vinnuna sína.” (útskrifaðist úr starfstengdu diplómanámi 2009)
Mynd af Steinunni Ásu

Steinunn Ása, starfsmaður mannréttindaskrifstofu

“Ég hef unnið hér í þrjú og hálft ár. Félagsskapurinn er góður og við hittumst stundum og stundum ekki fyrir utan vinnu. Það er mikilvægt fyrir fatlað fólk að hafa vinnu.”  (útskrifaðist úr starfstengdu diplómunámi við HÍ 2013). 
Mynd af Ólafi Snævari

Ólafur Snævar, frístundaleiðbeinandi

“Ég hef unnið í Hinu Húsinu í þrjú ár. Uppáhaldsdagarnir í vinnunni eru starfsdagar því þá fáum við fræðslu og svoleiðis. Mér finnst þetta vera skemmtileg vinna og mér líður vel í henni. Getur auðvitað stundum verið þreytandi en það er bara eðlilegt. Ég vona að fleiri fatlaðir fái að prófa að vinna hér því þetta er rosalega góður vinnustaður” Ólafur Snævar frístundaleiðbeinandi (útskrifaðist úr starfstengdu diplómunámi við HÍ 2013) 
Mynd af Maríu Hreiðarsdóttur

María Hreiðarsdóttir, þjónustufulltrúi

“Ég er búin að vinna í Þjónustumiðstöð Breiðholts í fjórtán ár. Ég hef verið að flokka pappíra sem er frekar einhæft en ég var líka að undirbúa klúbbastarf fyrir seinfæra foreldra. Ég mundi vilja hafa fleiri verkefni og eitthvað fast svo ég finni að það sé þörf fyrir mig. Það besta við vinnuna er samstarfsfólkið og að hafa laun. En ég vil fá raunveruleg tækifæri og stuðning til að byrja með en þá þarf að gefa manni tíma til að læra”  (útskrifaðist úr starfstengdu diplómunámi við HÍ 2013).
Mynd af Skúla Steinari

Skúli Steinar Pétursson, starfsmaður IKEA

“Ég hef unnið í Ikea í þrjú og hálft ár. Ég er núna í Sænsku búðinni að fylla á gos og nammi og ost. Ég er mjög ánægður með starfsfólkið hérna. Það er mikilvægt að hafa vinnu, en líka að geta breytt til, kynnst nýju fólki og lært nýja hluti og svoleiðis.”  (útskrifaðist úr starfstengdu diplómanámi við HÍ 2009).
Mynd af Andra Frey

Andri Freyr, bókvörður í Grófinni

“Ég hef unnið hér í 14 ár. Ég er að raða í hillur og þurrka af bókum og diskum. Ætli ég sé ekki bestur í að raða í hillur. Ég held að það sé bara gott samstarfsfólk hér” (útskrifaðist úr starfstengdu diplómunámi við HÍ 2009).
Mynd af Ragnari Smárasyni og Gísla Björnssyni fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands

Ragnar Smárason, verkefnastjóri á Menntavísindasviði HÍ

“Við erum búnir að vinna hjá HÍ síðan í janúar 2016. Það er mjög mikilvægt að vera í launaðri vinnu. Háskóli Íslands er bestur!”  (útskrifaðist úr starfstengdu diplómunámi 2013).
Mynd af Gísla Björnssyni í vinnunni

Gísli Björnsson, verkefnastjóri Jafnréttis fyrir alla og á skrifstofu Menntavísindasviðs HÍ

“Ég vinn núna líka í Stakkahlíð. Ég fer í Bónus á vinnubílnum, dreifi póstnum til starfsmanna og helli upp á kaffi og svoleiðis fyrir fundi. Það er gaman og lærdómsríkt.”