Opið bréf til mennta- og menningarmálaráðherra

Við undirrituð fögnum því að hafin sé vinna innan mennta- og menningarmálaráðuneytis við að auka tækifæri í námi og vinnu að starfsbraut lokinni. Við lýsum þó yfir miklum áhyggjum af því samráðsleysi sem nú þegar hefur birst í þeirri vinnu. 

Ráðherra segir „Ég bind vonir við að þessi breiða nálgun á málefnið muni skila tillögum sem auðvelda okkur að samræma þjónustu, bæta upplýsingaflæði og fjölga tækifærum – til hagsbóta fyrir nemendur, aðstandendur og atvinnulífið“.

Ljóst er að þessari breiðu nálgun eru takmörk sett þegar fólki með þroskahömlun er haldið utan við nefndina. Ráðherra vonast til að vinna nefndarinnar verði til hagsbóta fyrir „nemendur, aðstandendur og atvinnulífið“ en kýs að hafa samráð við alla sem í hlut eiga nema fulltrúa nemenda sjálfra. 

Í nýjum lögum um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir er kveðið á um virkt samráð við fatlað fólk á öllum stjórnsýslustigum. Það sama á við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Svo samráð teljist virkt samráð þarf fatlað fólk sjálft að vera leiðandi í ferlinu frá upphafi til enda. Ekki er því nóg að kalla fatlaða sérfræðinga inn sem álitsgjafa á tilfallandi fundi, telst það ekki sem virkt samráð. 

Ljóst er að mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgir ekki ofangreindum lögum við skipan í nefndina. 

Á hverju ári útskrifast um 30-50 nemendur af starfsbrautum sem þýðir að um 720 manns hafa útskrifast af starfsbrautum frá árinu 2000. Því býr fjöldi fólks yfir reynslu og þekkingu á málefninu og stöðu nemenda að loknu námi. Eins eru til samtök og hópar fólks með þroskahömlun sem hafa sérhæft sig í samráði og réttindum fatlaðs fólks. Má þar nefna Átak – félag fólks með þroskahömlun, Sendiherrar Sameinuðu þjóðanna og Jafnrétti fyrir alla. 

Við hvetjum nefndina til að bæta úr þessu hið fyrsta og virða rétt fólks með þroskahömlun á þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku er varðar fatlað fólk. 

Virðingarfyllst

Gísli Björnsson, verkefnisstjóri verkefnisins Jafnrétti fyrir alla við HÍ
Ragnar Smárason, verkefnisstjóri verkefnisins Jafnrétti fyrir alla við HÍ
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, verkefnisstjóri verkefnisins Jafnrétti fyrir alla við HÍ
Kristín Björnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ