Hvetjum formenn til að virkja öll kyn til þátttöku

Undanfarnar vikur hafa Jafnréttiskarlarnir skoðað kynjahlutföll í stjórnum hagsmunasamtaka og félaga fatlaðs fólks. Talsverður munur er á kynjahlutfalli aðildafélaga ÖBÍ annars vegar og Landssamtakanna Þroskahjálpar hins vegar. Skiptist nokkuð jafnt hjá ÖBÍ á meðan konur eru í meirihluta (70%) hjá Þroskahjálp.

Við heimsóttum nokkra formenn og spurðum þá hvað félögin gerðu til að virkja bæði karla og konur til þátttöku í stjórn og starfi. Þuríður Harpa formaður ÖBÍ segir bandalagið ekki hafa markvisst unnið að því að viðhalda jöfnum kynjahlutföllum í stjórn og nefndum. Þrátt fyrir það finnst henni mikilvægt að kynjahlutföllin séu jöfn og segir að ÖBÍ: “geti beitt sér fyrir því að konur séu duglegar að bjóða sig fram og að aðildafélögin bjóði fram konur í stjórn og nefndir”. Bryndís formaður Þroskahjálpar tekur í sama streng og segir að samtökin geti hvatt til þess að kynjahlutfallið sé sem jafnast en telur einnig mikilvægt að það ríki lýðræði og að fólk megi alltaf velja hverja þau kjósi.

“Ég hugsa einhvern veginn aldrei um fólk sem konur og karla. Til dæmis hjá okkur þá hugsum við líka um að það komi einhver frá öllum landsvæðum, það komi fulltrúi foreldra og það komi fatlað fólk. Þannig að við erum að reyna að passa upp á fjölbreytileikann og þá er ég hrædd um að kynjahlutföllin hafi kannski gleymst”, sagði Bryndís formaður Þroskahjálpar. Svipuð staða er hjá LAUFI félagi flogaveikra en öll stjórnin þeirra eru konur þó svo nokkrir karlar hafi setið í stjórn í gegnum árin. “Það er mismunandi hverjir koma að félaginu eins og aðstandendur eða þeir sem eru með flogaveiki sjálfir og eitthvað kannski fagfólk í stjórninni líka. En hvað varðar kynjamun þár erum við lítið að gera í því en að sjálfsögðu erum við ómeðvitað að hvetja karla til að taka þátt og stráka en við erum ekki með nein yfirlýst markmið því miður”, sagði Brynhildur formaður LAUFS.

Minni félög og samtök eiga oft erfitt með að manna stjórnir og þá er erfitt að taka tillit til kynjahlutfalla. Fáir fatlaðir einstaklingar eru með svokallaðan NPA samning en NPA miðstöðin aðstoðar fatlað fólk við að halda utan um slíka samninga. Rúnar Björn er formaður miðstöðvarinnar og segir að það hafi verið erfitt að manna stjórnina og ef miðstöðin eigi að vinna markvisst að jöfnu kynjahlutfalli þá þurfi að fjölga félagsmönnum og þeim sem eru viljugir til að taka þátt í stjórninni. Minnsta aðildafélag Þroskahjálpar samanstendur af 70 fjölskyldum einstaklinga með Downs heilkenni. Þórdís formaður félagsins greindi okkur frá því að nú væru eingöngu konur í stjórn og í gegnum árin hafa virkir félagsmenn verið konur í meirihluta. Þórdís sagði okkur frá því að rannsóknir um fósturskimanir hefðu leitt í ljós að karlmenn upplifðu sig útundan í ákvörðunartökunni ef fóstrið greindist með Downs heilkenni. “Félagið gaf út bækling um fósturskimun og í bæklingnum lögðum við áherslu á að þetta væri sameiginleg ákvörðun foreldra en ekki bara ákvörðun verðandi móður og lögðum því áherslu á karlmennina í ferlinu”, sagði Þórdís.

Viðmælendur voru sammála um að Jafnréttiskarlarnir hefðu vakið þá til umhugsunar um þátttöku kynjannna í stjórnum félaganna. Spyrill var Ragnar Smárason, ljósmyndari Gísli Björnsson og ritari Kristín Björnsdóttir.