Kristín Björnsdóttir dósent í fötlunarfræði og samstarfskona okkar skrifar:
Af hverju tileinka Sameinuðu þjóðirnar einhverfum stúlkum og konum 2. apríl 2018? Það er liður í því að viðurkenna að fatlaðar stúlkur og konur eru þolendur fjölþættrar mismununar en ekki síst til að tryggja aðkomu þeirra að opinberri stefnumótun er varðar líf þeirra og störf og þátttöku í félagasamtökum einhverfs fólks. Vitundavakning aprílmánaðar hófst árið 2007 þegar Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu einhverfu fólki 2. apríl og í kjölfarið efndu samtökin Autism Speaks til Light it up blue herferðarinnar eða Blár apríl á íslensku.
Það eru hins vegar ekki allir á eitt sáttir um ágæti þess að fagna aprílmánuði sem bláum og í mörgum löndum er hann alls ekki blár. Hér fyrir neðan eru nokkur rök gegn bláa litnum:
- Er blái liturinn strákalitur? Auðvitað er hann það ekki. En hann er það samt í menningarlegu samhengi. Lengi hefur því verið haldið fram að einhverfa sé fyrst og fremst röskun sem drengir greinast með. Stúlkurnar hafa gleymst og greinast seinna. Einkennin sem oft er leitað eftir eru karllæg, þ.e. hegðun sem drengir læra og sýna frekar en stúlkur. Þetta hefur orðið til þess að einhverfar stúlkur hafa gleymst og verið jaðarsettar í umræðunni um einhverfu.
- Fyrir hvað standa samtökin Autism Speaks? Víða um heim hafa samtökin, sem velta milljörðum, verið gagnrýnd fyrir að veita miklu fé í eigin rekstur og í leitina að lækningu á einhverfu í stað þess að einhverft fólk sjálft fái að njóta ágóðans. Það er mikilvægt að taka það sérstaklega fram að bandarísku samtökin Autism Speaks og íslensku samtökin Blár apríl tengjast ekki að örðu leyti en bláa litnum.
- Margir breyta Facebook myndinn af sér í bláa mynd með tilkynningu um að þeir séu „stoltir vinir“ ásamt símanúmeri söfnunarsíma góðgerðasamtaka. En hvað ætli séu margir af þeim sem hafa í raun hringt í númerið og gefið samtökunum aur? Og hvað eru margir sem hafa í raun sýnt einhverfu fólki samþykki, viðurkenningu og skilning?
- Er einn mánuður nóg? Af hverju ekki heilt ár? Einhverft fólk er einhverft allt árið.
Einhverft fólk vill umfram allt samþykki og viðurkenningu og þess vegna viljum við hvetja ykkur til þess að vera stoltir vinir í raun. Er nemandi í skólum barna ykkar með greiningu og kannski útundan þess vegna? Hvað getið þið sem foreldrar ófatlaðra barna gert til að stuðla að vináttu í barnahópnum? Er einhver á vinnustaðnum ykkar með einhverfu? Eru þau virkir þátttakendur í félagslífinu? Eða hefur ykkur kannski aldrei dottið til hugar að ráða einhverfan starfsmann? Fögnum fjölbreytileikanum allt árið.