Launað starf
Gísli Björnsson skrifar um mikilvægi þess að vera í launuðu starfi
Við Ragnar Smárason og Gísli Björnsson vorum ráðnir í 20% hlutastarf sem verkefnisstjórar hjá Háskóla Íslands. Haukur Guðmundsson bættist svo í hópinn þegar hann hóf starfsnám hjá okkur sem hluta af námi sínu í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun. Við vinnum í fjóra tíma í senn á þriðjudögum og fimmtudögum og stundum aðra daga ef við erum beðnir um að halda fyrirlestra um verkefnið. Það er margt skemmtilegt við þetta starf. Það er gaman að mæta í vinnuna og hitta vinnufélagana. Það er gott að fá að nýta hæfileika okkar og þroska nýja hæfileika. Við höfum td. lengi haft áhuga á mannréttindamálum og höfum starfað á því sviði áður. Jafnrétti og mannréttindi eru nátengd og því getum við nýtt reynslu okkar í mannréttindabaráttunni á sama tíma og við víkkum sjóndeildarhringinn og lærum eitthvað nýtt með reglulegu millibili. Það er mjög gefandi að fá að starfa á okkar áhugasviði og taka þannig þátt í hagsmunabaráttu fatlaðs fólks.
Á dæmigerðum vinnudegi mætum í vinnuna klukkan níu og byrjum á því að fara inn í eldhús og hella upp á kaffi eða fá okkur tebolla. Svo förum við inn á skrifstofu og skipuleggjum vinnudaginn. Það fer svo eftir því hvaða verkefni við erum að takast á við hvort við vinnum saman í hóp eða skiptum verkefnum á milli okkar og vinnum þau í sitt hvoru lagi. Á síðustu þremur og hálfum mánuðuðum höfum við verið í mikilli undirbúningsvinnu sem hefur td. falist í því að lesa okkur til um eldri rannsóknir, lesa og skilja jafnréttislögin, undirbúa hópviðtölin, búa til glærur fyrir fyrirlestra og skrifa pistla og greinar. Samtals höfum við haldið níu fyrilestra, þrjá í útlöndum og sex á Íslandi. Viðtökurnar hafa alltaf verið góðar og við finnum að það er mikill áhugi fyrir því sem við erum að gera. Við erum nýbúnir að halda fyrsta hópviðtalið af þremur og það verður spennandi að sjá hvaða niðurstöður birtast þegar við byrjum að vinna úr hópviðtölunum. Hápunktur vinnudagsins er svo þegar við höfum lokið við verkefni dagsins. Þá skellum við okkur í sjoppuna og kaupum okkur hádegismat. Svo setjumst við öll saman og borðum og spjöllum um málefni líðandi stundar. Það er mjög gaman því oft safnast hópur fólks sem vinnur á skrifstofuni og þá myndast skemmtileg stemning þar sem mikið er grínast og hlegið. Svo erum við líka duglegir að mæta skipulagða hittinga utan vinnutíma, eins og td. happyhour, árshátíðir eða óvissuferðir.