Kristín Björnsdóttir skrifar:

Við í jafnréttishópnum vorum svo heppin að fá til okkar nema, Hauk Guðmundsson, úr starfstengdu diplómanámi við Háskóla Íslands og langar okkur í örfáum orðum að þakka honum fyrir samstarfið. Frá fyrsta degi var það ljóst að Haukur væri dýrmæt viðbót við hópinn okkar og eru þetta búnar að vera lærdómsríkar vikur. Fyrsta verkefni Hauks var að setja upp heimasíðuna okkar sem verður mikilvægur vettvangur fyrir okkur til að miðla upplýsingum um verkefnið.

Þrátt fyrir að verknám Hauks hafi eingöngu verið í einn mánuð þá hélt hann þrjá opinbera fyrirlestra á málþingi um skóla án aðgreiningar, á lausnaþingi um málefni barna sem passa ekki í kassann og á leiðarþingi Átaks, auk þess að taka þátt í tveimur kynningum fyrir Myndlistarskólann í Reykjavík.

Haukur var í undirbúningshópnum fyrir leiðarþing Átaks ásamt Gísla Björnssyni og tók að sér að vera hópstjóri í umræðuhópi. Hann mætti á fundi með Kristínu um orlofsmál fatlaðs fólks hjá Velferðarráðuneytinu og verður fyrir hönd diplómunámsins í undirbúningshópi Jafnréttisdaga HÍ sem fram fara í október n.k.

Haukur tók einnig þátt í að skipuleggja og framkvæma rýnihóp um jafnréttismál ásamt Gísla og Ragnari og munum við segja frá þeim niðurstöðum á næstu vikum.

Vonandi fáum við að njóta krafta Hauks áfram því framlag hans til verkefnisins var svo sannarlega dýrmætt. Takk kærlega fyrir okkur.